Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 0,2% á milli apríl og maí síðastliðins á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Lækkunin er tilkomin vegna lækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu, en krónan lækkaði um 1,1% miðað við vísitölu meðalgengis í maí frá fyrri mánuði. Um þetta er fjallað í frétt frá Greiningu Íslandsbanka.

Þar segir að verðlagshækkun hefur vegið töluvert upp á móti áhrifum nafngengis á raungengi á þessu tímabili enda hækkaði verðlag um 0,9% miðað við vísitölu neysluverðs á sama tíma. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Þá hafi raungengi krónunnar lækkað stöðugt frá nóvember á síðasta ári, að undanskildnum síðasta aprílmánuði en þá átti sér engin breyting stað. Frá því í nóvember hefur raungengið lækkað um 5,3% og stendur það nú í 73,7 stigum, en það hefur ekki verið lægra síðan í maí í fyrra. Þessa lækkun má rekja til þróunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu sem einnig hefur lækkað um 5,3% frá því í nóvember miðað við vístölu meðalgengis. Á sama tíma hefur verðlag hér á landi hækkað þó nokkuð, eða sem nemur um 3,3% miðað við vísitölu neysluverðs, en verðlag hefur einnig verið að hækka erlendis og hefur það því ekki leitt til hækkunar á raungengi krónunnar.

Flest bendir til töluverðrar verðlagshækkunnar á næstunni, m.a. vegna kjarasamningsbundinna hækkana á launum sem ætla má að fari smám saman yfir í verðlag til neytenda. Kæmi því ekki á óvart að raungengi krónunnar hækki af þeim sökum á næstu mánuðum. Þó veltur það að sjálfsögðu á því hvernig nafngengi krónunnar kemur til með að þróast, sem hefur verið að gefa töluvert eftir upp á síðkastið.