Raungengi launa, annar helsti mælikvarðinn á raungengi krónunnar ásamt raungengi verðlags, styrktist um 17,0% milli þriðja ársfjórðungs 2014 og þriðja ársfjórðungs 2015. Þetta má sjá á í uppfærðum tölum Seðlabankans um raungengi krónunnar .

Raungengi launa var á þriðja fjórðungi síðasta árs orðið jafn hátt eins og það var árið 2004. Í ágúst spáði Seðlabankinn því að þetta myndi ekki gerast fyrr en árið 2017, miðað við spá í Peningamálum og útreikninga Viðskiptablaðsins.

Raungengi launa er mælikvarði á hversu hár launakostnaður er á Íslandi miðað við önnur lönd. Hækkun raungengis launa gerir það dýrara að ráða fólk á Íslandi í samanburði við í útlöndum. Þannig getur styrking raungengis dregið úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í samanburði við erlend fyrirtæki.

Hraðari styrking en Seðlabankinn spáði

Raungengi launa náði gildinu 106,1 árið 2007 en helmingaðist í hruninu og var 57,1 árið 2009. Í fyrra var raungengi launa orðið 77,6 en á 3. ársfjórðungi síðasta árs var gildi raungengisins orðið 90,3. Það er hærra raungengi en Seðlabankinn spáði í ágúst að yrði árið 2016, miðað við spá um launakostnað, framleiðni og nafngengi sem fram kom í Peningamálum.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um raungengi krónunnar í september síðastliðnum. Þar kom fram að raungengi krónunnar gæti náð hápunkti ársins 2007 á árinu 2017, ef miklar launahækkanir og styrking nafngengis krónunnar héldu áfram.

Raungengi verðlags, sem oft er einfaldlega nefnt raungengi krónunnar, hækkaði um 8,3% í fyrra .