Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 0,7% í júlí, samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum, og hefur nú lækkað í fimm mánuði í röð. Það sem af er ári hefur raungengið veikst um 4%, en yfir árið í fyrra lækkaði það um 35,3%. Árið 2007 styrktist það hins vegar um 6,3%.

Samkvæmt áætlun Seðlabankans er vísitala raungengis krónunnar nú 66,7,sem er langt undir sögulegu meðaltali, en vísitalan var sett í 100  í janúar 2000. Frá þeim tíma hefur raungengið að meðaltali verið 95,9 stig, en fram að hruni var meðaltalið frá árinu 2000 98,4 stig. Þróunina frá árinu 2000 má sjá á meðfylgjandi línuriti.

Veikt raungengi er almennt til marks um lakari lífskjör hér á landi, minni innflutning og aukinn útflutning.