Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 2,4% í október síðastliðinn á mælikvarða hlutfallslegs verðlags og er gildi raungengisins komið í 98,9 stig, samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Vísitala raungengis á sama mælikvarða var 4% hærri í þeim mánuði en árið áður.

Milli júlí og september hafði raungengið lækkað samfellt eða um samtals 8,9%. Hækkunin er til komin vegna 1,9% styrkingar á nafngengi krónunnar í október og 0,47% hækkun á vísitölu neysluverðs.

Hagfræðideild Landsbankans hefur bent á að verulega hefur dregið úr flökti á gengi krónunnar upp á síðkastið og að nú sé krónan nokkuð stöðug eftir mikið flökt síðastliðið sumar. Verðbólgutölur Hagstofunnar fyrir október voru umfram væntingar greiningaraðila, einkum vegna óvæntrar hækkunar á mat- og drykkjarvöru, en verð­bólga í október var 1,9%.

Þess má geta að heildarvelta á gjaldeyrismarkaði var 185 milljónir evra eða jafnvirði 22,8 milljarða króna í október. Hlutur Seðlabankans var 0% af veltunni.