Raungengi krónunnar er í hæstu hæðum og miklar líkur eru á því að það muni lækka töluvert á næstu tveimur árum. Þetta segir Yngi Harðarson, framkvæmdastjóri fjármálaráðgjafafyrirtækisins Analytica.

„Raungengið hefur sjaldan verið hærra og þegar það hefur farið svona hátt hefur það haft sögulega tilhneigingu til að lækka hratt aftur. Í gegnum hagsveiflur síðastliðinna 60 ára eða svo, eða síðan 1960, hefur raungengið farið fimm sinnum í þær hæðir sem það er í núna. Í sögulegu samhengi þýðir það að um 90% líkur á að raungengið verði lægra til lengdar,“ segir Yngvi.

Sjá einnig: Líkur á að krónan verði áfram sterk

„Ég held að eftir tvö til þrjú ár verði raungengið því talsvert lægra en það er í dag. Ef raungengið hækkar meira má búast við því að skellurinn í genginu verði meiri.“ Yngvi telur jafnframt að raungengið sé langt yfir jafnvægisraungengi, en miðað við núverandi aðstæður er það allt að 19% yfir langtímameðaltali sínu.

„Hitt er svo annað mál hvað það er sem mun toga í gikkinn - þættir í hagkerfinu sjálfu eða utanaðkomandi þættir,“ segir Yngvi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .