Ef spár Seðlabankans um launaþróun og nafngengi krónunnar rætast mun raungengi íslensku krónunnar styrkjast hratt á næstu árum. Nánar tiltekið verður raungengi krónunnar á mælikvarða launa jafn hátt árið 2017 eins og árið 2004, miðað við útreikninga Viðskiptablaðsins. Meiri launahækkanir og hraðari styrking krónunnar gætu stuðlað að enn frekari styrkingu raungengisins. Sterku raungengi fylgir yfirleitt slæm samkeppnisstaða útflutningsgreina og halli af viðskiptum við útlönd. Slíkar aðstæður geta því leitt til efnahagslegs óstöðugleika.

Í Peningamálum Seðlabankans frá því í ágúst, þar sem finna má nýjustu birtu spá bankans um launaþróun, er tekið fram að í forsendum spárinnar gæti falist nokkurt vanmat. Ástæða þessa er að niðurstaða gerðardóms um launahækkanir Bandalags háskólamanna lá ekki fyrir þegar spáin var gerð.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir í samtali við Viðskiptablaðið að í ljósi niðurstöðu gerðardóms sé ein af þeim forsendum sem koma til skoðunar við endurskoðun kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ við Samtök atvinnulífsins augljóslega brostin.

© vb.is (vb.is)

Raungengi eins og 2007 eftir tvö ár

Auk þessa eru vísbendingar um aukinn áhuga erlendra aðila á því að fjárfesta hér á landi. Aukið innflæði erlent fjármagns mun að öðru óbreyttu styrkja nafngengi krónunnar. Nafngengið styrkstist um tæp fjögur prósent í ágúst á sama tíma og eign erlendra aðila í óverðtryggðum ríkisskuldabréfum jókst um tæpa átján milljarða.

Sé gert ráð fyrir því að nafngengi krónunnar styrkist um tvö prósent til næstu áramóta og haldist síðan óbreytt út árið 2017, og að launahækkanir á næstu tveimur árum verði tveimur prósentustigum meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu Peningamálum, mun raungengi krónunnar verða jafn hátt árið 2017 eins og það var árin 2005 og 2007 miðað við útreikninga Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .