Kvika skilaði í gær ársuppgjöri bankans en þar kom fram að hann skilaði tapi eftir skatta sem nemur tæpum 483 milljónum króna. Hagnaður fyrir skatta nam 271 milljónum króna en bókfærður tekjuskattur nam 731 milljón króna. Viðskiptablaðið fjallaði um afkomu bankans í gær.

Ástæðan fyrir þessari háu tekjuskattsgreiðslu að sögn Sigurðar Atla Jónssonar, forstjóra Kviku, er vegna þess að bankinn er að afskrifa stóran hluta af skatteign. „Það er afskrift upp á 888 milljónir króna sem er ekki greiddur tekjuskattur heldur afskrift af skatteign sem hafði verið eignfærð áður og hefur því ekkert með rekstur bankans að gera,“ segir Sigurður Atli.

Á síðasta ári voru MP banki og Straumur fjárfestingabanki formlega sameinaðir og var sameinaður banki skírður Kvika í október síðastliðnum. Afkoma bankans á árinu markast að miklu leyti vegna einskiptisliða en á meðal þeirra er neikvæð viðskiptavild vegna samrunans sem nemur 298 milljónum króna.

280 milljónir vegna starfsloka

Þar að auki er beinn kostnaður vegna samrunans á borð við ráðgjafakostnað og svo greiddur uppsagnarfrestur þeirra starfsmanna sem hættu í kjölfar samrunans. Samanlagður kostnaður vegna þessara starfsloka nam 280 milljónum króna.

Sé tekið tillit til þessara kostnaðarliða vegna samrunans nam hagnaður bankans 685 milljónum króna á árinu 2015.

Spurður að því hvort bankinn hafi lokið öllu sem viðkemur sameiningu MP banka og Straums segir Sigurður Atli að svo sé að langmestu leyti. „Það var markmiðið um áramótin að fyrsta fasa samrunans yrði lokið. Að félagið væri komið í jafnvægi og hefðum náð stöðugleika svo við gætum byggt upp á árinu 2016. Við teljum að það hafi náðst mjög vel,“ segir hann.