Að sögn Þorvalds Gylfasonar hagfræðiprófessors getur verið gagnlegt að horfa til gangs mála á Taílandi þegar reynt er að meta þróunina hér næstu misseri.

,,Þar féll gengi bahtsins um helming í upphafi, en helmingur gengisfallsins gekk síðan til baka. Taíland rétti úr kútnum á fáeinum árum. Þetta er algengt munstur í fjármálakreppum," sagði Þorvaldur.

Hann benti á að gengi krónunnar hefði nú fallið um meira en helming og taldi hann líklegt að það félli enn meira, þegar krónan verður sett aftur á flot. ,,Síðan mun gengið væntanlega rísa aftur upp við dogg, en hversu mikið og á hversu löngum tíma er ógerningur að segja. Ég geri ráð fyrir, að gengi krónunnar verði um 40% til 50% lægra, þegar um hægist, en það var fyrir kreppu, og byggi þá skoðun meðal annars á athugunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. En ef gengisfölsunarfélagið fer aftur á stjá, það er ef stjórnvöld hverfa aftur til hágengisstefnu fyrri tíðar, gæti gengisfallið orðið minna en ég geri ráð fyrir. Ég held þó, að gengisfölsunarfélagið sé nú loksins orðið gjaldþrota af þeirri einföldu ástæðu, að hágengisstefna útheimtir greiðan aðgang að erlendu lánsfé. Nú er lánstraust Íslands þrotið eða að minnsta kosti skert langt fram í tímann, svo að raunhæf gengisskráning kemur ein til greina. Annað er ekki í boði. Rétt gengisskráning mun renna styrkari stoðum undir útflutning, sem þjóðin þarf nú sem aldrei fyrr á að halda til að efla atvinnu og standa skil á erlendum skuldum."