Frá upphafi farsóttarinnar árið 2020 hefur kaupmáttur launa á Íslandi hækkað að meðaltali um 2% á ári. Til samanburðar hefur kaupmáttur dregist saman um 1% á ári í öðrum Evrópuríkjum og um 0,3% í Bandaríkjunum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtum Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Kaupmáttur launa minnkaði lítillega á Íslandi í fyrra, eða um 0,16% frá fyrra ári, þar sem almennt verðlag hækkaði umfram laun. Lækkun raunlauna hérlendis var þó mun minni
en í öðrum þróuðum ríkjum eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Þannig lækkuðu raunlaun um 4,15% á milli áranna 2021 og 2022 á Norðurlöndunum og um 2,86% í Bretlandi. Þegar tekið er miðgildi 17 Evrópulanda, að undanskildu Bretlandi og Norðurlöndum, dróst kaupmáttur launa saman um 3,63% á milli ára. Í Bandaríkjunum lækkuðu raunlaun um 2,53% á milli áranna 2021 og 2022.