Raunstýrivextir verða 27% í þessum mánuði að óbreyttu, að sögn Agnars T. Möller hjá GAM Management. Agnar hefur skoðað þróun raunvaxta þeirra nýmarkaðslanda sem búa við hæstu stýrivextina og um leið hæstu raunvextina. Miðað við þriggja mánaða hlaupandi árlega verðbólgu er Ísland nú með hæstu raunvextina, sem skýrist að verulegu leyti af því að þriggja mánaða verðbólga hefur fallið hratt hér á landi og er nú komin undir 1%.

Agnar hefur tekið saman hvernig raunvaxtaþróun á Íslandi verður miðað við þrennskonar mismunandi árlegan verðbólguhraða frá og með maí, þ.e. eftir verðhjöðnunarmánuðinn mikla. Þá gerir hann í útreikningum sínum ráð fyrir 100 punkta lækkun stýrivaxta á mánuði. Þessu er lýst á meðfylgjandi mynd.

Agnar segir að í öllum dæmunum þremur séu raunvextir enn mjög háir og raunvaxtaþróun yfir árið íþyngjandi. Hann segir að miðað við núverandi stýrivexti verði raunstýrivextir í apríl 27% og vafasamt sé að mörg dæmi finnist um hærri raunstýrivexti í sögunni. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er á miðvikudaginn, 8. apríl.