Raunvaxtamunur milli Íslands og Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Svíþjóðar hefur farið minnkandi á þessu ári, segir greiningardeild Glitnis.

?Kemur þetta til vegna þess að á meðan ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa hefur farið lækkandi á árinu, hefur ávöxtunarkrafa erlendra bréfa farið hækkandi," segir greiningardeildin.

Það eru til litla upplýsingar um fjárfestingarstefnu þeirra erlendu aðila sem eru að kaupa íslensk skuldabréf.

?Í því samhengi skiptir máli hvort um er að ræða óverðtryggð bréf, ríkisbréf eða verðtryggð bréf, íbúðabréf. Almennt er talið að þeir erlendu aðilar sem fjárfesta í ríkisbréfunum séu viðskiptavinir einkabanka eða erlend eignastýringarfyrirtæki sem oftar en ekki haldi bréfunum að gjalddaga.

Markmið þeirra er að nýta sér þá háu vexti sem í boði eru hérlendis og geta því talist langtímafjárfestar í þeim skilningi. Algengt er að vogunarsjóðir (hedge funds) sýni innlendum skuldabréfum mikinn áhuga en þeir hafa einkum fjárfest í íbúðabréfum. Eru þeir þá hvort tveggja að færa sér í nyt vaxtamuninn og svo þann hagnaðarmöguleika sem felst í krónunni," segir greiningardeildin.

Spáir lækkandi ávöxtunarkröfu með auknum áhuga erlendra fjárfesta

Með tilliti til þessa er líklegt að áhugi fjárfesta muni aukast með lægra gengi krónu.

?Ennfremur eru aðrir fjárfestar sem kæra sig ekki um að taka stöðu í krónunni, heldur eru að veðja á að krafa bréfanna lækki. Þeir haga fjárfestingum sínum oftast á þann veg að þeir taka lán í íslenskum krónum á móti fjárfestingunni. Einnig má gera ráð fyrir auknum áhuga frá þessum hópi fjárfesta með lækkandi stýrivöxtum og þar með lækkandi fjármagnskostnaði," segir greiningardeildin.

Hún reiknar með að gengi krónunnar lækki töluvert á næsta ári og að stýrivextir verði komnir í 10% fyrir árslok 2007.

?Því teljum við að fjárfestingar erlendra aðila í innlendum skuldabréfum komi til með aukast á næsta ári þrátt fyrir eilítið minnkandi vaxtamun. Samhliða því má búast við þrýstingi til lækkunar ávöxtunarkröfu innlendra skuldabréfa," segir greiningardeildin.