Ef sú spá rætist, sem kom fram í könnun Seðlabankans meðal markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, mun raunvaxtastig á landinu verða á bilinu 2,0% til 2,2% næstu tíu árin.

Lífeyrissjóðirnir þurfa sem kunnugt er að ná að meðaltali að minnsta kosti 3,5% raunávöxtun á ári til að útreikningar þeirra gangi upp.

Sú spurning vaknar því hvort mögulegt verði að ná því markmiði. Talsmenn lífeyrissjóðanna segja að þetta sé ekki spurning sem þurfi að svara í svipinn, en segja að ef hlutabréfamarkaður vakni almennilega til lífsins á ný geti ávöxtun á honum verið meiri og þar með vegið upp á móti lægri raunávöxtun á skuldabréfamarkaði.