Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti yfir áhyggjum af háu raunvaxtastigi hérlendis í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hann sagði raunvaxtastigið afar hátt samanborið við löndin í kringum Ísland. Þá sagði Bjarni að stefna Seðlabanka Íslands í afnámi gjaldeyrishafta sé ótrúverðug. Mikilvægt sé að aflétta þeim sem allra fyrst. Hvernig Seðlabankinn fjalli um afnámið gefi ekki mikið til kynna um hvenær það geti orðið.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var til svara og sagðist sammála þingmanninum um mikilvægi raunvaxtastigsins. Ríkisstjórnin ætli að kalla aðila vinnumarkaðarins saman til að fara yfir hvernig hægt sé að örva hagvöxt. Hún benti á að í nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði meiri á árinu en fyrri spár gerðu ráð fyrir.

Þá sagðist Jóhanna einnig vera sammála Bjarna um skaðsemi gjaldeyrishaftanna. Hún sagði áætlanir Seðlabankans, sem nú vinnur að endurskoðaðri áætlun um afnám gjaldeyrishafta, benda til að hægt verði að afnema þau í skrefum.