Raunverð fasteigna hefur hækkað um um það bil 23 prósentustig á einu ári, frá ágúst 2016 til ágúst 2017. Þar sem að verðbólga hefur verið lítil og stöðug síðustu misseri þá hefur raunverð fasteigna hækkað talsvert meira en ella. Þetta bendir hagfræðideild Landsbankans á í nýrri Hagsjá um fasteignamarkaðinn.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkað um 3 prósentustig, sem þýðir að umtalsverð verðhjöðnun hefur verið á Íslandi á síðustu tólf mánuðum — ef húsnæðisliðurinn er tekinn út fyrir sviga. Það þýðir að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðastliðið ár koma nú fram sem meiri raunverðshækkun en sem nemur þeirri tölu útskýrir sérfræðingur Landsbankans.

Verulegar hækkanir sérbýlis

Samkvæmt nýútgefnum tölum Þjóðskrá Íslands hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu voru hækkanir meiri en síðastliðna mánuði og á það sér í lagi við um sérbýli. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um eitt prósentustig í ágúst eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá. Þar af hækkaði sérbýli um 2,4 prósentustig og verð á fjölbýli um 0,5 prósentustig. Heildarhækkunin síðustu tólf mánuði nemur 19,1 prósentustigum, sem er svipað og í síðasta mánuði og því hefur lækkun fasteignaverðs stöðvast í bili.

„Verð á fjölbýli hækkaði í síðasta mánuði eftir litlar breytingar síðustu tvo mánuði. Það virðist því sem meiri ró sé yfir þeim markaði en verið hefur, en engu að síður er hækkunin um 1% nú töluverð. Verð á sérbýli hækkar enn í svipuðum takti og verið hefur, eða um u.þ.b. 20% á ári,“ segir í greiningu Landsbankans. Hagfræðideild bankans telur því að vangaveltur um mögulega kólnun á markaðnum hafi fengið smá mótbyr með ágústtölunum, þar sem að hækkanir eru enn miklar í sögulegu samhengi.