Raunverð fasteigna hefur hækkað nær stöðugt frá því í upphafi ársins 2013, en lækkar nú örlítið milli mánaða samkvæmt Hagfræðideild Landsbankans.

Í gær birti Þjóðskrá Íslands tölur um fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu í október. Verð hækkaði einungis um 0,17% í október sem er minnsta hækkun milli mánaða frá því í júní 2015. Þar af hækkaði verð á sérbýli um 0,3% og verð á fjölbýli um 0,1%. Hækkanir frá fyrra ári eru á hraðri leið niður, en eftir sem áður mjög miklar segir Hagfræðideildin.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 17% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 19%. Heildarhækkunin nemur 17,6%, sem er eilítið meira en í síðasta mánuði. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,5% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 12,5% næstu sex mánuði þar á undan.

Í greiningu Hagfræðideildar segir að verðbólga hafi verið lítil og stöðug síðustu misseri og því hafi raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í nýliðnum október var þannig 2,3% lægri en í október 2016. Raunverð fasteigna hefur því hækkað um rúm 20% á einu ári, frá október 2016 til október 2017.

Í greiningunni segir ennfremur að sé litið á fjölda viðskipta með íbúðarhúsnæði megi sjá að þróunin hefur verið mjög sveiflukennd á síðustu mánuðum. Fjölda viðskipta með fjölbýli hefur frekar fækkað allt frá því í nóvember 2016, þó með stökkum upp á við inn á milli, t.d. nú í október. Tölur um fjölda viðskipta fyrir fjölbýli eru þannig mun lægri en fyrir ári síðan. Sé fjöldi viðskipta yfir lengri tíma skoðaður má sjá að tími samfellds vaxtar milli ára er liðinn, a.m.k í bili. Sé meðalfjöldi viðskipta á þessu ári borinn saman við sömu stærðir á síðustu árum má sjá að töluvert hefur dregið úr viðskiptum bæði með fjölbýli og sérbýli, eða sem nemur rúmum níu prósentustigum.

Íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað nokkuð á þessu ári, og magnið er nú svipað og það var á seinni hluta ársins 2015. Þá hefur sölutími fasteigna einnig lengst. Hvort tveggja ætti að geta stuðlað að meiri ró á markaðnum.

Þá segir einnig í greiningunni: „Töluverð umræða hefur verið um mögulega kólnun fasteignamarkaðarins eftir að nokkuð dró úr verðhækkunum í sumar. Litlar hækkanir áttu hins vegar einungis við um fjölbýli á þessum tíma; hækkanir á sérbýli voru áfram miklar. Nú í október voru verðhækkanir litlar á bæði fjölbýli og sérbýli sem styrkir þá skoðun að tímabili mikilla verðhækkana fasteigna fari að linna. Eftir sem áður ber að undirstika að ætíð er varasamt að túlka breytingar milli einstakra mánaða. En sé litið yfir lengra tímabil nú, t.d. með því að bera saman síðustu sex mánuði og sex mánuði þar á undan lítur út fyrir að tímabil hóflegri verðhækkana sé runnið upp.“