Á næstu tveimur árum eru uppi áform um mikla uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar,en stefnt er að uppbyggingu nýbyggingar að Strandgötu 30 sem verður tengd verslunarmiðstöðinni Fjörður að því er Morgunblaðið greinir frá.

Verður verslunarrýmið aukið með þessu á jarðhæð, en á efri hæðum verði hótelherbergi, hótelíbúðir eða gistiheimili. Samkvæmt áætlunum mun húsnæðið rúma allt að 100 hótelherbergi.

Kostar þrjár milljarða

Gert er ráð fyrir að uppbygging hótelsins kosti allt að 1.775 milljónir króna, verslunarrýmið kosti 622 milljónir og hótelíbúðirnar kosti 574 milljónir, sem samanlagt gerir um þrjá milljarða króna.

Viðbyggingin bætir við 1.750 fermetrum við verslunarrýmið á jarðhæð Fjarðar, en á móti verða losaðir 1.000 fermetrar á efri hæð verslunarmiðstöðvarinnar, sem nýttar verði fyrir hótelið, aðallega sem alls kyns sameiginlegt rými eins og móttöku og annað.

Eina bæjarfélagið með eiginlegan miðbæ

Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði hefur trú á því að uppbyggingin muni draga ferðamenn inn í bæinn.

„Við erum eina bæjarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur, sem er með eiginlegan miðbæ og þetta mun efla þá sérstöðu,“ segir Haraldur.

„Með uppbyggingu vandaðs hótels verður Hafnarfjörður raunverulegur kostur í huga ferðamanna sem vilja kynnast íslensku samfélag eins og það er í raun.“