*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 27. febrúar 2020 11:43

Raunvextir nálgast núllið

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur aldrei verið lægri eftir lækkanir síðustu vikna.

Ástgeir Ólafsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa á gjalddaga 2021 hafa lækkað um 21 punkt (0,21 prósentustig) í rúmlega 2,6 milljarða viðskiptum dagsins. Hún stendur nú í 0,11% og hefur aldrei verið lægri. Þá hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa á gjalddaga 2026 og 2030 einnig lækkað um 8 og 7 punkta í viðskiptum dagsins. 

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hefur lækkað töluvert það sem af er ári og þá sérstaklega í febrúarmánuði. Ávöxtunarkrafa bréfa á gjalddaga 2021 hefur lækkað um 108 punkta frá áramótum, bréf á gjalddaga 2026 um 69 punkta og bréf á gjalddaga 2030 um 59 punkta. Samkvæmt markaðsaðilum sem viðskiptablaðið ræddi við skýrist lækkun síðustu vikna að einhverju leyti af hækkandi verðbólguhorfum og versnandi hagvaxtarhorfum m.a. vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Verðbólga yfir væntingum 

Á meðan ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur lækkað í viðskiptum dagsins hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa hækkað um 4-7 punkta þar sem hækkun hefur verið meiri eftir því sem bréfin eru lengri. 

Hækkun óverðtryggðu kröfunnar og lækkun þeirra verðtryggðu í dag skýrist að einhverju leyti af því að verðbólgutölur sem birtar voru fyrr í morgun og sýndu 2,4% verðbólgu í febrúarmánuði voru yfir væntingum greiningaraðila. Þannig hafði greining Íslandsbanka spáð 2,1% verðbólgu og hagfræðideild landsbankans spáð 1,9% verðbólgu í mánuðinum. 

Þrátt fyrir hækkun dagsins hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðu bréfanna lækkað þó nokkuð það sem af er ári eða um 39 til 44 punkta. 

Stikkorð: verðbólga Skuldabréf vextir