Félag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Rauðsól ehf., nú 365 miðlar, hefur verið dæmt til þess að greiða þrotabúi Íslenskrar afþreyingar 160 milljónir króna. Rauðsól var stofnað í október 2008 skömmu áður en gengið var frá samningi um kaup á 365 miðlum, sem meðal annars rekur Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylgjuna.

Rauðsól gerði samning um að fá rúmlega 155 milljóna króna afslátt á 365 miðlum. Eftir að Íslensk afþreying, sem áður hét 365, var tekið til gjaldþrotaskipta í fyrra ákvað skiptastjóri þrotabúsins, Friðjón Friðjónsson, að krefjast þess að ákvörðuninni um fyrrnefndan afslátt yrði rift þar sem um gjafagerning í skilningi laganna væri að ræða. Héraðsdómur féllst á þessa kröfu Friðjóns og taldi ekki nægar ástæður styðja það að Rauðsól fengi afslátt á 365 miðlum.

Rauðsól var gert að greiða dráttarvexti sem "reiknast af 310 milljónum króna frá 5. nóvember 2008 til 11. sama mánaðar, af 210 milljónum króna frá þeim degi til 1. desember sama árs og af 160 milljónum króna frá þeim degi til greiðsludags," eins og orðrétt segir í dómi Héraðsdóms. Þá var Rauðsól ennfremur dæmd til greiðslu 750 þúsund króna.