Það var rautt um að litast á aðalmarkaði kauphallarinnar á Íslandi við lokun markaða í dag. Gengi hlutabréfa 14 félaga lækkaði í 2,6 milljarða viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan OMXI10 lækkaði um 0,57% og stendur fyrir vikið í 3.383,17 stigum.

Gengi fjögurra félaga hækkaði í dag; Origo, hvers gengi hækkaði mest, um 2,71%, Skeljungur um 2,15%, Síldarvinnslan um 1,05% og loks VÍS um 0,27%.

Íslandsbanki lækkaði mest allra félaga, um 3,24%, og stendur gengi bréfa bankans í 119,5 krónum sem þó er um 51 prósenti yfir útboðsgengi bréfanna. Þá lækkaði Síminn næst mest, um 1,79%, og Festi þriðja mest, um 1,48%.

Mest var velta með bréf í Marel, 426,1 milljón króna. Þá nam velta með bréf í Arion banka 420,5 milljónum og velta með bréf Festar 334,3 milljónum.

Solid Clouds hækkaði um rúm 9%

Af First North markaði er það að frétta að Solid Clouds hækkaði um 9,34% í viðskiptum dagsins, en velta með bréfin nam 754 þúsund krónum. Play lækkaði um 0,46% en Hampiðjan hækkaði um 1,89% en velta með bréf félaganna nam í báðum tilfellum um 3 milljónum króna. Mest var velta með bréf Kaldalóns, 8 milljónir króna, en gengi bréfanna stóð í stað.

Líflegt á skuldabréfamarkaði

Þá var jafnframt líflegt á skuldabréfamarkaði, hvers velta nam 8,4 milljörðum í dag, mest með óverðtryggð ríkisskuldabréf til langs og meðallangs tíma, samtals um 3 milljarðar. Þá nam velta með Ríkisvíxla í flokknum RIKV 21 0915 1,1 milljarði króna.

Mest lækkaði krafa langra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa í flokknum RIKB 31 0124 í viðskiptum dagsins, um 0,77%.