Það er skemmst frá því að segja að gengi félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hafi ekki verið gott í dag. Gengi allra félaga utan tveggja lækkaði í dag og af þeim sem lækkuðu var lækkunin yfir prósenti í öllum tilfellum nema tveimur.

Mest var lækkunin á bréfum Icelandair eða tæp 20% og stendur hluturinn nú í 1,9. Félagið hefur ekki verið lægra frá því árið 2009. Í upphafi dags var dýfan enn skarpari en rétti sig af fyrir lokun markaða. Heildarviðskipti með bréf félagsins náðu 69 milljónum króna.

Næst mest var lækkunin á bréfum í Origo eða 5,86% í 28 milljón króna viðskiptum. Þar á eftir kom Eik með 5,22% í 51 milljóna veltu. Arion banki lækkaði um 4,42% þar sem bréf fyrir 106 milljónir króna skiptu um hendur og Reitir lækkuðu um 4,27%.

Engin viðskipti voru með bréf í Högum sem stóðu í stað en 942 þúsund krónur nægðu til að Eimskip lækkaði um 3,88% og þá lækkaði Síminn um 3,58% í 162 milljón króna viðskiptum. Lækkun Iceland Seafood, Sjóvár, VÍS og Regins var á bilinu 2-3% og þá lækkaði Brim um 1,9% í þriggja milljóna viðskiptum. Festi og TM lækkuðu um rúmt prósent. Aðeins Skeljungur og Kvika fóru ekki yfir prósents lækkun en bæði félög voru í kringum 0,6% lækkun.

OMXI10 vísitalan lækkaði um 3,59% en heildarvelta á markaðnum í dag nam 1,3 milljörðum króna og 16 milljónum betur.