Bandaríski tæknirisinn Microsoft skilaði 3,2 milljarða dala tapi á síðasta ársfjórðungi, en 8,4 milljarða dala afskriftir settu stórt strik í reikninginn hjá fyrirtækinu að þessu sinni. Er þetta versta árshlutauppgjör í sögu fyrirtækisins.

Á sama tíma í fyrra skilaði fyrirtækið 4,6 milljarða dala hagnaði. Fyrr í mánuðinum hafði Microsoft hins vegar tilkynnt 7,5 milljarða afskriftir á virði Nokia sem fyrirtækið keypti fyrir stuttu síðan.

Tekjur fyrirtækisins námu 22,2 milljörðum dala á tímabilinu og féllu um 5% á milli ára. Hagnaður síðasta árs nam 12,2 milljörðum dala og var helmingi lægri en ári fyrr. Tekjur fyrirtækisins á árinu jukust hins vegar um 6,7 milljarða dali og námu nú 93,5 milljörðum.