Heldur rautt var yfir Kauphöllinni en úrvalsvísitala OMXI10 lækkaði um 1,04% í sáralitlum viðskiptum sem námu 337 milljónum króna. Vísitalan stendur nú í 2.086,9 stigum og hefur hún lækkað um 1,6% það sem af er árs.

Einungis tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Bréf Haga um 0,8% sem standa nú í 50,2 krónum hvert og bréf Símans um 0,34% sem nú standa í 5,92 krónum.

Mest lækkuðu bréf Icelandair eða um 9,23% en eins og svo oft áður voru viðskipti með bréf félagsins lítil eða um 3 milljónir. Bréfin standa nú í 1,77 krónum hvert og er markaðsvirði félagsins því um 9,6 milljarðar króna. Lækkun dagsins má rekja til þess að Icelandair hefur frestað hlutafjárútboði sínu til ágúst.

Næst mest lækkuðu bréf Skeljungs, um 2,66%, og standa bréf félagsins nú í 8,42 krónum hvert. Viðskipti með bréf félagsins nam rúmlega 42 milljónum. Þriðja mest lækkun var á bréfum Arion Banka, um 2%, og standa bréf félagsins í 68,7 krónum og hafa þau því hækkað um 16,06% síðasta mánuð.