Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu í dag. Það sem helst olli lækkuninni var hækkun olíuverðs og bréf fjármálafyrirtækja lækkuðu vegna frétta af að komið hafi til tals hjá stjórnvöldum að þjóðnýta fjárfestingalánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac.

Fyrr í dag var send út tilkynning þegar Dow Jones vísitalan fór niður fyrir 11000 stig, á meðan olíuverð sló enn eitt metið í 147 Bandaríkjadölum á tunnu. Ástandið skánaði þó nokkuð seinnipart dags og við lokun hafði Dow Jones vísitalan skriðið aftur yfir 11000 stig.

Nasdaq vísitalan lækkaði í dag um 0,8%. Dow Jones lækkaði um 1,1% og Standard & Poor´s lækkaði einnig um 1,1%.

Olíuverð hækkaði um 2,2% og kostar tunnan nú 144,8 Bandaríkjadali.