Sjóðstýringarfyrirtækið Bridgewater Associates var stofnað árið 1975 af Ray Dalio. Í dag stýrir félagið ríflega 160 milljörðum dala fyrir fagfjárfesta, en alls starfa um 1700 einstaklingar hjá fyrirtækinu.

Bridgewater hefur oft hlotið mikla athygli, enda hefur Ray Dalio lagt mikið upp úr því að aðgreina fyrirtækið með fyrirtækjamenningu, sem er byggð á sannleika og gagnsæi.

En þar sem Dalio er orðinn 67 ára, leitar hann sífellt leiða til þess að draga sig úr sviðsljósinu. Í dag tilkynnti hann svo að hann hygðist stíga úr forstjórastóli í næsta mánuði, þó mun hann enn gegna stöðu fjárfestingastjóra eða CIO.

Þó svo að fréttirnar hafi vakið athygli, tilkynnti Dalio einnig að Jon Rubenstein, sem var ráðinn til þess að sinna forstjórastöðunni með Dalio, myndi hætta hjá félaginu eftir 10 mánuði.

Rubenstein er betur þekktur sem einn af uppfinningamönnum iPod-sins en hann starfaði lengi vel hjá Apple, áður en hann var fenginn yfir til Bridgewater.

Í pistli sem birtist á LinkedIn, sagði Dalio þá báða vera sammála um að Rubenstein myndi ekki passa nægilega vel inn í fyrirtækjamenningu sjóðstýringarfélagsins. Í ljósi þess að fyrirtækjarmenningin er undirstaða Bridgewater, var talið æskilegt að láta Rubenstein stíga til hliðar.

Bridgewater telst vera eitt farsælasta sjóðstýringarfyrirtæki heims, þegar litið er til ávöxtunar. Fyrirtækjamenningin hefur aftur á móti mikil áhrif á starfsmannaveltuna.