Royal Bank of Scotland (RBS) á ekki í viðræðum við Bank of America (Bofa) um þessar mundir vegna bandaríska smásölubankans LaSalle. Frá þessu greindi framkvæmdastjóri RBS, Sir Fred Goodwin, í gær og sagði að viðræðum bankans við BofA væri lokið í kjölfar þess að þeim hefði ekki tekist að ná samkomulagi um verð sem báðir aðilar væru reiðubúnir að fallast á.

Þessi ummæli Goodwin komu markaðsaðilum nokkuð á óvart í ljósi þessu hversu miklu máli skiptir fyrir RBS að leysa þá deilu sem stendur um LaSalle eftir að RBS-hópurinn svokallaði - sem samanstendur einnig af Santander og Fortis - lagði fram yfirtökutilboð í síðustu viku í ABN Amro. Það tilboð hljóðaði upp á 71,1 milljarð evra og 79% þeirrar upphæðar verða greidd með peningum, en afgangurinn með nýjum hlutabréfum í RBS. Bankarnir þrír lögðu hins vegar tilboðið fram með því skilyrði að LaSalle bankinn yrði ekki seldur til Barclays, eins og samkomulag ABN við breska bankann þann 23. apríl síðastliðinn gerði ráð fyrir. Hluthafar ABN voru aftur á móti andsnúnir því tilboði og tókst að fá hollenskan dómstól til að úrskurða um að fresta bæri sölunni á LaSalle þangað til að samþykki hluthafa ABN Amro lægi fyrir.

Financial Times hefur það eftir Goodwin að hann sé "hæfilega bjartsýnn" varðandi möguleika RBS-hópsins um að ná samkomulagi við ABN um yfirtöku á bankanum. Ef samruni bankanna verður að veruleika verður um að ræða stærsta samning í sögu bankageirans. Þrátt fyrir að viðræður RBS og BofA um framtíð LaSalle hafi ekki skilað neinum árangri hingað til sagðist Goodwin ekki hafa teljandi áhyggjur af því máli og að breski bankinn væri jafnframt opinn fyrir því að taka upp viðræður á ný.

Framtíð LaSalle gæti ráðist í næsta mánuði
Í frétt Reuters fréttastofunnar kemur fram að hollenskur dómstóll muni úrskurða um hvort hluthafar ABN Amro eigi að greiða atkvæði um söluna á LaSalle til BofA og það megi vænta úrskurðar þess efnis í næsta mánuði. BofA hefur hótað ABN lögsókn ef bankinn stendur ekki við skuldbindingar sínar. Stjórnendur RBS sögðu frá því í síðustu viku að bankinn hygðist halda eftir um 2,5 milljörðum Bandaríkjadala vegna hugsanlegs kostnaður sem myndi hljótast af lögsókn BofA. Í gær staðfesti Goodwin að bankinn myndi hins vegar skila þeirri upphæð til hluthafa ABN ef yfirtökutilboð RBS-hópsins gengi eftir.

Það sem greinir einna helst á milli yfirtökutilboða RBS-hópsins og Barclays eru áætlanir þess fyrrnefnda að skipta ABN Amro upp á milli bankanna þriggja með það að markmiði að endurskipuleggja allan rekstur ABN. Í frétt breska dagblaðsins Times er greint frá því að RBS ætli aðeins að segja upp tvö þúsund manns á Bretlandi, á meðan áætlanir Barclays geri ráð fyrir því að ellefu þúsund manns missi vinnu sína.

Hlutabréf RBS hafa lækkað nokkuð frá því að bankinn hóf baráttu sína um yfirráð í ABN Amro í aprílmánuði, en það sem af er þessum mánuði hefur gengi bréfanna hækkað lítillega og rétt áður en markaðir lokuðu í gær höfðu þau hækkað um tæplega 0,7%.