Gjaldeyrisvaraforði [Seðlabankans] dugir ekki til að verja krónuna sem gerir það að verkum að ekki verður hægt að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en seint á þessu ári eða í byrjun þess næsta.

Þetta er mat Royal Bank of Scotland (RBS) en Dow Jones fréttaveitan greinir frá þessu í dag. Eins og kunnugt er mun Seðlabankinn kynna í vikunni áætlun um afnám gjaldeyrishafta í skömmtum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt.

RBS gerir ráð fyrir því að höftum verði aflétt með þeim hætti að auðvelt verði að flytja fjármagn til landsins í þeim tilgangi að opna fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi.

Hins vegar verði áfram höft á útflutningi fjármagns en til þess að þeim höftum verði aflétt þarf Seðlabankinn, að mati RBS, að koma sér upp öflugum gjaldeyrisvaraforða. Sá forði byggist að mestu upp á lánveitingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Þar sem lánveitingar af hálfu þessara aðila mun tefjast í það minnsta fram á haust mun Seðlabankinn ekki ná að byggja upp varaforða til að verja krónuna falli.

Að mati RBS má gera ráð fyrir töluverðu útflæði fjármagns við afnám haftanna sem mun leiða til veikingar krónunnar. Fram kemur í greiningu RBS að þrátt fyrir að viðskiptajöfnuður hafi verið jákvæður síðustu mánuði dugi það eitt ekki til að efla gjaldeyrisvaraforðann.