RBS-hópurinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander, hefur lagt fram nýtt og betra yfirtökutilboð í ABN Amro í kjölfar þess að hollenskur dómstóll úrskurðaði að sala ABN á bandaríska bankanum LaSalle til Bank of America fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala þyrfti ekki samþykki hluthafa hollenska bankans. Sú sala var hluti af samkomulagi ABN og Barclays sem gert var þann 23. apríl síðastliðinn. Hið nýja tilboð RBS-hópsins hljóðar upp á 71,1 milljarð dala - líkt og fyrra tilboð bankanna - en í þetta skiptið er gert ráð fyrir því að hlutfall peninga verði 93%, í stað 70% áður. Bankarnir þrír benda á að tilboð sitt sé 13,7% hærra heldur en tilboð Barclays, sem er auk þess að öllum hluta fjármagnað með nýjum hlutabréfum í breska bankanum.

Þrátt fyrir að framkvæmdastjóri RBS, Fred Goodwin, viðurkenndi að bankinn hefði fremur kosið að eignast LaSalle, þá taldi hann engu að síður að yfirtaka á ABN væri skynsamlegt skref fyrir bankann. "Við erum að fá aðgang að nýjum mörkuðum og tækifæri til að útvíkka viðskiptastarfsemi okkar enn frekar," sagði Goodwin, en áform RBS gera ráð fyrir því að bankinn muni taki yfir núverandi starfsemi ABN Amro í Brasilíu og Asíu.

Ákvörðun RBS-hópsins að koma fram með betra tilboð í ABN kom fæstum greiningaraðilum á óvart. Í frétt Dow Jones fréttastofunnar er haft eftir sérfræðingum hjá fjármálafyrirtækinu Bear Stearns að hópurinn sé núna kominn í lykilstöðu gagnvart Barclays, sem hefur litla möguleika á því að jafna hið háa hlutfall peninga sem tilboð RBS-hópsins gerir ráð fyrir því. Af þeim sökum telja þeir að réttast væri fyrir Barclays að draga tilboð sitt til baka, enda myndi slík ákvörðun væntanlega hafa jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa bankans.