Evrópski bankahópurinn sem vill yfirtaka ABN Amro - Royal Bank of Scotland (RBS), Fortis og Santander - útlistaði í gær tilboð sitt í hollenska bankann, í kjölfar þess að fjármálaeftirlitið þar í landi (AFM) óskaði eftir því að það yrði gert opinbert.

Bankahópurinn, sem RBS fer í forystu fyrir, staðfesti að tilboð þess í ABN yrði fjármagnað að 70% hluta með peningum, afgangurinn með hlutabréfum í RBS og væri upp á 38,4 evrur á hlut, en auk þess yrði greitt 0,6 evrur á hlut í sérstaka arðgreiðslu. Það er því ljóst að tilboð RBS-hópsins er allt að sjö milljörðum evra hærra heldur en það sem breski bankinn Barclays lagði fram og samkomulag náðist um 23. apríl síðastliðinn.

Í tilkynningu sem hópurinn sendi frá sér í gær kemur fram að RBS myndi taka að sér leiðandi hlutverk í því að endurskipuleggja allan rekstur ABN Amro ef gengið verður að tilboði bankanna. RBS myndi yfirtaka bandaríska bankann LaSalle og efla starfsemina í Bandaríkjunum og Asíu; Fortis yrði stærstur í smásölubankastarfsemi og lífeyristryggingum í Benelux löndunum; Santander fengi hins vegar að yfirtaka þá starfsemi sem ABN er með í Brasilíu og Ítalíu.

ABN Amro sagði í gær að þeir hefðu ekki átt í neinum viðræðum við RBS-hópinn frá því 6. maí þegar bankinn ákvað að hafna tilboði hópsins í LaSalle upp á 24,5 milljarða Bandaríkjadala. Stjórnendur ASBN töldu tilboðið hefði ekki verið betra en 21 milljarðs dala tilboð Bank of America sökum þess að RBS-hópurinn hafi einnig gert það að skilyrði að fallist yrði um leið á yfirtökutilboð bankanna í ABN Amro.