Kaupsýslumaður sem skrifaði skýrslu til stjórnvalda þar sem Royal Bank of Scotland var harðlega gagnrýndur var látinn færa viðskipti sín úr bankanum í kjölfarið. Frá þessu er greint á vef BBC og málið verður í fréttaskýringaþættinum Panorama í kvöld.

Lawrence Tomlinson skrifaði skýrsluna árið 2013 og gagnrýndi starfshætti bankans. Hann sagði bankann meðal annars hafa viðhaft vafasamt eignamat til þess að skemma fyrir ákveðnum fyrirtækjum. Síðar fékk hann bréf frá aðstoðarforstjóra bankans, Chris Sullivan, sem sagði honum að hann yrði að taka húsnæðislán sitt, fjármál fyrirtækja sinna og persónulega bankareikninga úr bankanum.

"Í ljósi langvinnrar óánægju þinnar með bankann höfum við komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt traust milli þín og bankans sé ekki lengur til staðar. Af þessari ástæðu höfum við ákveðið að við getum ekki haldið áfram bankasambandi við þig," sagði meðal annars í bréfinu.

Bankinn hætti að lokum við að láta hann skipta um banka með einkaviðskipti sín, en hann þurfti að finna nýja banka fyrir fyrirtækin, sem veita 2.000 manns atvinnu. Tomlinson segir þetta hafa verið gert til að skemma sem mest fyrir honum og viðskiptum hans. Bankinn segir ákvörðunina ekki hafa haft neitt að gera með skýrsluna sem Tomlinson skrifaði.