Royal Bank of Scotland (RBS) hefur tilkynnt að bankinn muni skila tapi á árinu 2015, en uppgjörið verður birt í næsta mánuði.

Ástæða tapsins eru miklar sektir sem voru lagðar á bankann vegna misferlis bankans frá því fyrir hrun. Sektirnar nema 2,5 milljörðum punda, eða um 466 milljörðum króna. Auk þess hefur hann tekið til hliðar fjármuni sem nema tvo milljarða punda, um 373 milljarða króna, til að borga frekari sektir vegna svipaðra mála, m.a. vegna málaferla í Bandaríkjunum. Bankinn er einn eftir af stóru bönkunum sem hefur ekki samið við bandarísk yfirvöld, en um 12 bankar hafa þegar samþykkt að greiða sektir vegna málanna.

Þetta er áttunda árið í röð sem bankinn skilar tapi, en við tilkynninguna lækkuðu hlutabréf í bankanum um 3% og hafa ekki verið lægri í þrjú ár.

Breska ríkisstjórnin á 73% í bankanum, en tap ríkissjóðs verður ljóst þegar ársreikningurinn verður birtur þann 26. febrúar.