Royal Bank of Scotland hefur birt efnahagsspá sem er ansi svört. Bankinn segir fjárfestum að hlaupa í skjól og selja allt nema örugg skuldabréf. Bankinn segir að þetta ár verði ár efnahagshörmunga á mörkuðum (e. cataclysmic year for markets). Meðal þess sem RBS segir í skýrslunni til að vara fjárfesta við er að „dyrnar eru litlar ef veislusalurinn er fullur.“

Áhyggjur RBS beinast aðallega að því að efnahagskerfi heimsins séu á leiðinni í verðhjöðnunar-kreppu. Samkvæmt spám þeirra gæti það þurrkað út allt að 20% af markaðsvirði hlutabréfamarkaða og að olíuverð gæti lækkað niður í 16 dali á tunnu.

Sérfræðingar RBS benda einnig á mikla skuldasöfnun ríkja, fyrirtækja og einstaklinga, auk þess sem efnahagur Kína virðist vera að hiksta verulega. Gert er ráð fyrir að hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum gætu fallið um 10 til 20% og að verðfall í Bretlandi gæti verið enn meira.

Skýrsla RBS kemur stuttu eftir að Morgan Stanley birti skýrslu um að olíuverð gæti fallið niður í 20 dali á tunnuna og ummæli George Soros um að ástandið nú minni hann á margan hátt á upphaf fjármálakreppunar 2008.