Royal Bank of Scotland, sem er að stærstum hluta í eigu breska ríkisins, skilaði tapi upp á 3,5 milljarða punda á síðasta ári en fjárhæðin jafngildir um 718 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá uppgjörinu.

Ástæðu tapsins má einna helst rekja til afskrifta fjögurra milljarða punda við sölu á bandaríska bankanum Citizens á árinu. Ross McEwan, framkvæmdastjóri RBS, staðfesti að hann myndi ekki þiggja bónusgreiðslu frá bankanum á þessu ári, en hins vegar munu bónusgreiðslur til starfsmanna nema í heild sinni 421 milljón punda. Er það 21% lægri fjárhæð en ári fyrr.

Niðurstaðan batnar hins vegar sé litið til ársins 2013, en þá nam tap bankans um 9 milljörðum punda.