Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur skrifað bréf til allra utanríkisráðherra Evrópusambandslandanna og greint þeim frá þeirri niðurstöðu Alþingis að sækja um aðild að ESB.

Hann kveðst í samtali við Viðskiptablaðið stefna að því að hitta ráðherrana sem allra fyrst og leggur áherslu á að eiga við þá góð og persónuleg samskipti.

Hann segist sömuleiðis fyrir atkvæðagreiðsluna á þingi hafa rætt við fimmtán til átján þeirra og sagt þeim frá ESB-umræðunni hér heima.

Þá hafi hann greint Angelu Merker, kanslara Þýskalands, frá ESB-umræðunni í símtali fyrir nokkru sem og utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Eins og fram kom í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag hefur Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, þegar gengið á fund ráðuneytisstjóra sænska utanríkisráðuneytisins og afhenti umsókn Íslands.

Á sama tíma kynnti Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu, umsóknina fyrir framkvæmdastjórn sambandsins.