REC, norskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu sólarrafhlaðna, hefur hug á að reisa nýja kísilverksmiðju (e. polysilicon) á árinu 2009 og eru nú tveir staðir sem koma til greina fyrir verksmiðjuna. Þeir eru Ísland og N-Ameríka. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Áætluð framleiðslugeta verksmiðjunnar er 25 þúsund tonn sem er um 4 sinnum meira en nýjasta verksmiðja þeirra sem nú er í smíðum í Washington fylki. Ákvörðunar er að vænta innan tveggja mánaða, segir í Vegvísi.

Greiningadeild Landsbankans segir uppgjör fyrsta fjórðungs hjá REC, sem birt var í morgun, vera nokkuð yfir væntingum markaðarins. Þar að auki staðfestu stjórnendur fyrirtækisins áætlanir sínar fyrir þetta ár sem gera meðal annars ráð fyrir að vöxtur fyrirtækisins verði meiri en 25% á ársvísu.

„Þykir bjart yfir REC og jafnvel að myndarleg vaxtarspá sé íhaldssöm í ljósi hagstæðrar verðþróunar á vörum fyrirtækisins. Í uppgjörinu var gjaldfærður óvenjuhár kostnaður (226 m.NOK) vegna veikrar stöðu bandaríkjadollars gagnvart norsku krónunni. Það kemur til vegna langtímasamninga við 3 fyrirtæki sem færðir voru til bókar í bandaríkjadollar,“ segir í Vegvísi.