Halldór Kristmannsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi og hluthafi í Actavis, segir að hann hafi ráðið öryggisvörð á heimili sitt í byrjun árs. Það hafi hann gert sökum þess hvernig Róbert Wessmann, forstjóri félagsins, hefði hagað sér í gegnum tíðina. Þetta er meðal þess sem Halldór segir í forsíðuviðtali í helgarblaði Fréttablaðsins .

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að þeir Halldór og Róbert hafa tekist hart á í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Þeir höfðu verið samstarfsmenn í tæpa tvo áratugi en óhætt ætti að vera að fullyrða að kastast hafi í kekki þeirra á milli, svo ekki sé harðar að orði kveðið. Átökin byrjuðu bakvið tjöldin en Halldór færði þau á vettvang opinberrar umræðu eftir að stjórn félagsins hafnaði sáttum í tvígang að eigin sögn.

Í viðtalinu núna segir Halldór að hann segi frá upplifun sinni þar sem framkoma Róberts hafi gengið fram af honum og grunngildum sem hann lifir eftir. Þá hafi Róbert kýlt hann kaldan í vitna viðurvist. Í Fréttablaðinu er vitnað til ónafngreindra heimildarmanna sem staðfesta þá frásögn hans. Að sögn Halldórs hafi hann stigið frá borði á þessum tímapunkti því heilsa hans leyfði ekki meir.

„Árið 2020 hafði verið tíðindamikið hvað varðar þrýsting á mig varðandi hans persónulegu mál. Þá kom að því að ég varð bara að gera upp við mig hvort ég vildi standa í lappirnar og standa vörð um ákveðin grunngildi sem mér finnst mikilvæg. Hann hafði uppi ákveðnar hótanir gagnvart mér, sem snéru meðal annars að mínum verkefnum innan fyrirtækjanna. Ég skoraði á hann í þrígang á fundi okkar að segja mér einfaldlega upp störfum ef hann væri ósáttur,“ segir Halldór í viðtalinu.

Aztiq segir Fréttablaðið prenta lygi

Það hafi ekki gerst en fyrir síðustu jól hafi líkaminn sagt stopp og hann farið í þriggja mánaða veikindaleyfi. Honum hafi síðan verið sagt upp störfum. Að hans eigin sögn getur trúnaður ekki ríkt um morðhótanir og líkamsárásir. Stjórnarmönnum hafi aftur á móti mistekist að takast á við jafn stóran hluthafa og Róbert er.

„Það er ekki auðvelt að skylmast við einhvern eins og Róbert, hann hefur sýnt það með líkamsárásum og alvarlegum morðhótunum að hann getur alveg verið hættulegur maður. Þegar ég sendi bréf til stjórna fyrirtækjanna í janúar var mér bæði létt, en ég verð þó að viðurkenna að ákveðin hræðsla hafi gripið um sig á heimilinu,“ segir Halldór. Af þeim sökum hafi hann ráðið öryggisvörð sem stóð vaktina frá lokum skóladags barna hans og fram á nótt.

Í svörum Aztiq Fund, fjárfestingafélagi í eigu Róberts, við fullyrðingum Halldórs, til Fréttablaðsins segir að „[Halldór] sé hreinlega lygari“ og að blað sem prenti slíkt sé að prenta lygi. „Þetta er því miður uppspuni hjá Halldóri og þykir okkur miður ef Fréttablaðið ætlar að birta ósannindi,“ segir í svari Aztiq.

Í viðtalinu við Fréttablaðið segir Halldór að hann kysi helst að ljúka málinu utan dómstóla. Ef honum verði stefnt muni hann þó að sjálfsögðu grípa til varna og leggja fram gögn sem styðji mál sitt.