Hið íslenska reðasafn tapaði rúmlega einni milljón króna á síðasta ári. Það er nokkuð verri afkoma en árið á undan þegar hálfrar milljóna króna hagnaður var af rekstri safnsins. „Það var auðvitað töluverður kostnaður við flutninginn,“ segir Hjörtur Gísli Sigurðsson safnstjóri. Hjörtur opnaði safnið í Reykjavík um miðjan nóvember eftir að hafa flutt það frá Húsavík.

Hann segir kostnaðinn við flutninginn standa að baki rekstrartapinu þó að tapið hafi ekki verið mikið. „Ég er bara bjartsýnn á þetta. Þetta á klárlega að geta staðið undir sér og skaffað einum manni atvinnu,“ segir Hjörtur um stöðu safnsins.