Samfélagsmiðillinn Reddit ætlar í hlutafjárútboð, en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Reddit hefur skilað inn umsókn til verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna og mun hlutafjárútboðið hefjast þegar eftirlitið hefur samþykkt umsóknina. Í tilkynningunni segir að það eigi eftir að ákveða fjölda hluta og verðbil hlutafjárútboðsins, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal .

Á samfélagsmiðlinum má finna spjallþræði fyrir öll möguleg umræðuefni. Má þar nefna spjallþráðinn „WallStreetBets“ sem hefur verið umtalaður á árinu. Fjárfestar á spjallþræðinum fylktu sér á bak við tölvuleikjasalann GameStop sem varð til þess að gengi félagsins hækkaði tuttugufalt á innan við mánuði.

Þó eru takmörk fyrir því hvað má fara fram inn á miðlinum, en í fyrra bannaði Reddit spjallþráðinn „The_Donald,“ sem helgaður var Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Sjá einnig; Virði Reddit tvöfaldast

Í ágúst á þessu ári tilkynnti miðilinn að það hefði tryggt sér 400 milljón dala fjármögnun frá fjárfestingarfélaginu Fidelity. Jafnframt hefur miðilinn tryggt sér fjármagn frá mörgum áttum, þ.á.m. frá kínverska tæknifyrirtækinu Tencent Holdings.

Reddit tilkynnti í ágúst að það væri orðið 10 milljarða dala virði, en 50 milljónir nota Reddit daglega.