Heimsmarkaðsverð silfurs hækkaði um 11% fyrr í dag eftir að almennir fjárfestar á Reddit spjallborðinu Wallstreetbets og fylgjendur þeirra á Twitter og fleiri miðlum beindu sjónum sínum að góðmálminum.

Únsan stendur nú í 28,8 dölum, en fór hæst í um 30, og hlutabréf í silfurnámufyrirtækjum hafa hækkað um allt að 60%.

Eins og frægt er orðið stóðu almennir dagkaupmenn á Wallstreetbets á bak við ævintýralega hækkun hlutabréfa tölvuverslunarkeðjunnar Gamestop , sem á hápunkti sínum í síðustu viku höfðu ríflega 30-faldast frá áramótum.

Samkvæmt frétt BBC um málið vilja þó sumir meina að stór bandarísk fjármálafyrirtæki séu á bak við hækkunina á silfurverði. Stór skortstaða nokkurra vogunarsjóða í Gamestop olli keðjuverkandi áhrifum þegar verðið tók að hækka verulega, og sjóðirnir kepptust við að kaupa bréf til að loka skortstöðum sínum og koma í veg fyrir frekara tap, sem ýtti undir enn frekari hækkanir.

Auk Gamestop keyptu Reddit-fjárfestarnir bréf fyrirtækja eins og kvikmyndahúsakeðjunnar AMC og tæknifyrirtækjanna Nokia og Blackberry. Markaðurinn með silfur er hinsvegar annar og mun stærri en með bréf einstakra félaga.

Silfurverðið hefur þrátt fyrir það hækkað um fimmtung síðan á miðvikudag – sem telst ansi mikil hreyfing á svo stórum markaði – en sú hækkun bliknar þó í samanburði við margföldun Gamestop-bréfanna.