Meðalfjárhæðir í viðskiptum með hlutabréf í Kauphöll Íslands hafa þrefaldast á tæplega tveimur á hálfu ári. Á sama tíma hefur meðalfjöldi viðskipta á dag aukist um rúmlega helming (52%) og velta með hlutabréf tæplega fjórfaldast (370%). Samanburðurinn nær til meðalfjölda viðskipta og veltu í Kauphöllinni á árinu 2001 samanborið við meðaltöl frá ársbyrjun 2004 til 16. júní 2004.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að meðalfjárhæð í viðskiptum á árinu 2001 nam 2,5 milljónum króna og hefur farið stig vaxandi, í 5,7 milljónir króna á árinu 2002 og í 8,4 milljónir króna árið 2003. Milli áranna 2001 og 2003 er því um að ræða 236% hækkun meðalviðskiptafjárhæðar. Aukningin sýnir vel þá þróun og uppgang sem verið hefur á innlendum hlutabréfamarkaði síðustu árin. Innkoma nýrra, stórra aðila á markaðinn og greiðari aðgangur fjárfesta að fjármagni á lágum vöxtum hefur að öllum líkindum haft mikið að segja í þessu sambandi.

Það sem af er árinu 2004 hefur meðalfjárhæð í viðskiptum numið um 7,4 milljónum króna og er það tæplega 12% lækkun frá því í fyrra. Lækkunin milli ára skýrist m.a. af stórum sameiningum og yfirtökum á árinu 2003, einkavæðingu Landsbankans, sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans, sameiningu Íslandsbanka og Sjóvá og afskráningu Baugs Group, olíufélaganna og fjölmargra annara úr Kauphöllinni. Að hluta til skýrist hækkun meðlfjárhæðar í viðskiptum af því að félög á markaðinum eru nú færri og stærri og markaðurinn því orðinn virkari en áður.

Ef aðeins eru borin saman innanþingsviðskipti hefur meðalfjárhæð í viðskiptum rúmlega tvöfaldast (120%) á sama tímabili, þ.e. frá ársbyrjun 2001 til 16. júní 2004. Meðalfjöldi viðskipta hefur hins vegar aukist um 124% í innanþingsviðskiptum (úr 117 að meðaltali á dag í 268) og meðalveltan um 384% (úr 126 milljónum króna að meðaltali á dag í 612 milljónir).