Hollenski drykkjavöruframleiðandinn Refresco, sem er í eigu FL Group og Vífilfells, stendur í yfirtökuviðræðum við einn helsta samkeppnisaðila sinn í Þýskalandi. Þetta kom fram á kynningardegi fyrir markaðsaðila (e. Capital Markets Day) í Hollandi í gær.

Í frétt Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag, kemur fram að áður hafði komið fram að helsta markmið fundarins var að kynna óskráðar eignir félagsins. Á fundinum var áréttað að Refresco hyggðist stækka með yfirtökum og hyggst félagið ljúka kaupum á sex fyrirtækjum á næstu sex mánuðum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa viðræðurnar farið vel af stað en nokkurn tíma gæti tekið að ljúka þeim.

Það kom einnig fram á fundinum að Refresco hefur nýlega gengið frá viljayfirlýsingu um kaup á leiðandi fyrirtæki á sviði drykkjavöruframleiðslu í Austur-Evrópu.

FL Group og Vífilfell samþykktu að kaupa Refresco fyrir 461 milljón evra (44,6 milljarðar króna) í apríl síðastliðnum. Hjá Refresco starfa um 1.200 manns í 5 löndum en félagið er annar stærsti framleiðandi á ávaxtasöfum og svaladrykkjum undir vörumerkjum verslana (e. private label) í Evrópu. Helstu markaðssvæði félagsins eru Þýskaland, Frakkland, Spánn, Portúgal, Holland og Finnland. Árið 2005 nam velta félagsins 606 milljónum evra og var hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) 64,1 milljón evra.