Drykkjarvörufyrirtækið Refresco, í meirihlutaeigu FL Group, Vífilfells og Kaupþings, hefur fest kaup á breska drykkjarvöruframleiðandanum Histogram að því er segir í tilkynningu. Kaupverð kemur ekki fram en velta Histogram nam jafnvirði 2,7 milljarða íslenskra króna á síðasta ári.


Histogram er fyrsta fyrirtækið sem Refresco kaupir í Bretlandi, en fyrir skömmu festi fyrirtækið kaup á Kentpol í Pólandi. Í fréttatilkyningu FL Group kemur fram að undir stjórn íslensku fjárfestanna hefur verið mörkuð sú stefna að stækka Refresco hratt með kaupum, samruna og/eða yfirtökum og kaupin á Histogram séu mikilvægt skref á þeirri leið.

Eigendur og stjórnendur Refresco líta á bæði Pólland og Bretland sem mikilvæg vaxtarsvæði fyrir fyrirtækið og telja að með þessum kaupum muni takast að ná fótfestu á þessum mikilvægu mörkuðum. Pólski markaðurinn er ört vaxandi og Bretland er stærsti markaður í Evrópu fyrir ávaxtasafa.

Refresco er að uppruna hollenskt fyrirtæki en er með framleiðslu á 13 stöðum í Evrópu, í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Finnlandi og Pólandi og nú bætist Bretland við.


Með kaupum Refresco á Histogram getur Refresco þjónað evrópskum viðskiptavinum á Bretlandseyjum og jafnframt nálgast bresk fyrirtæki sem vilja reyna fyrir sér á evrópumarkaði. Þessi kaup fela því í sér mikla möguleika fyrir fyrirtækið.


Refresco var stofnað árið 1999 í núverandi mynd, en árið 2006 keypti hópur fjárfesta undir forystu FL Group fyrirtækið. Refresco framleiðir fyrst og fremst drykkjarvörur undir merkjum annarra, þeirra á meðal margra af helstu matvörumörkuðum í Evrópu. Á síðasta ári störfuðu nálega 1.250 manns hjá Refresco og velta fyrirtækisins nam jafnvirði 60 milljarða íslenskra króna.


Um Histogram:


Histogram er staðsett í Durham í norð-austur hluta Englands. Fyrirtækið var stofnað árið 1999 þegar þáverandi framkvæmdastjórn keypti það af Coca Cola fyrirtækinu. Histogram er einkum þekkt fyrir framleiðslu fyrsta flokks ávaxtasafa en hefur á undanförunum þremur árum fjárfest í nýrri tækni og tækjum sem hafa aukið sveigjanleika og fjölbreytni í framleiðslu og gæði drykkjarvara fyrirtækisins. Velta Histogram nam jafnvirði 2,7 milljarða íslenskra króna á síðasta ári.