Evrópski gosdrykkjaframleiðandinn Refresco hefur keypt kanadíska gosdrykkjaframleiðandann Cott Corp fyrir 1,25 milljarða dollara eða því sem jafngildir um 132 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag. Stoðir, sem áður var FL Group á tæplega níu prósenta hlut í Refresco Group. Gengi bréfa Refresco, sem er skráð í Kauphöllinni í Amsterdam hafa hækkað um 2,32 prósentustig eftir að kaupin gengu í gegn. Frá kaupunum er greint í frétt Reuters .

Í fréttinni kemur fram að Refresco styrkir stöðu sína á gosdrykkjamarkaði allverulega. Að sögn forstjóra Refresco, Hans Roelofs, verður fyrirtækið nú leiðandi í gosdrykkjaframleiðslu. Fyrirtækið mun framleiða um 12 milljarða lítra á ári, en fjórðungur af þeirri framleiðslugetu kemur frá Cott.

Í apríl var greint frá því að íslenskir fjárfestar ásamt tryggingafélaginu TM hafi keypt ríflega fimmtíu prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Stoðum af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Kaupendahópurinn samanstendur af félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, sem var áður forstjóri FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni Jónssyni fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni FL Group.

Afkoma Stoða var neikvæð um 4,8 milljarða króna árið 2016. Eigið fé Stoða í árslok 2016 nam 12,9 milljörðum króna. Stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins er Jón Sigurðsson. Gengi bréfa Refresco hefur verið frekar sveiflukennt á þessu ári en bréf þess hafa hækkað mikið frá því í byrjun apríl - eða um ríflega 16 prósentustig frá byrjun mánaðarins þar til dagsins í dag.