Hollenska drykkjarvörufyrirtækið Refresco sem er að stærstum hluta í eigu FL Group og annarra íslenskra fjárfesta, hefur fest kaup á evrópska fyrirtækinu Sun Beverages Company sem á og rekur verksmiðjur í Frakklandi, Hollandi og Belgíu. Þetta eru langstærstu kaup Refresco til þessa og auka verulega við umsvif fyrirtækisins segir í frétt félagsins.

Gert er ráð fyrir að formlega verði gengið frá kaupunum á næstu sex vikum, eftir að meðal annars samkeppnisyfirvöld hafa veitt samþykki sitt.

Refresco komst í eigu FL Group og fleiri aðila fyrir tæpu ári og var sú stefna strax mörkuð í samráði við stjórnendur að fyrirtækið myndi stækka hratt með samrunum og yfirtökum. Sú áætlun hefur gengið vel segir í fréttatilkynningu  eins og kaup Refresco á Sun Beverages sýnir augljóslega.

Á síðustu tveimur mánuðum hefur Refresco að auki keypt fyrirtækin Kentpol í Póllandi og Histogram í Bretlandi. Þetta sýnir glögglega að sú stefna sem mótuð hefur verið um rekstur Refresco skilar þeim árangri sem stjórn, stjórnendur og eigendur hafa lagt upp með að ná. Fyrirtækið hefur nú um það bil tvöfaldað veltu sína á einu ári þegar tekið er tillit til ytri jafnt sem innri vaxtar.

Nokkrar lykiltölur:
? Í árslok 2005 var velta Refresco um 600 milljónir evra.
? Með kaupum á Kentpol náðist fótfesta á ört vaxandi mörkuðum í Austur Evrópu og um 40 milljónir evra bættust við veltu Refresco.
? Kaupin á Histogram auka veltu um EUR 30 milljón og tryggja aðgang að breska markaðnum, einum mikilvægasta markaði Evrópu fyrir ávaxtasafa og gosdrykki.
? Kaupin á Sun Beverages eru mikilsvert skref fyrir Refresco, enda var velta Sun Beverages á síðasta ári um 235 miljónir evra. Kaupin styrkja mjög stöðu Refresco á helstu mörkuðum fyrirtækisins í Evrópu.
? Eftir fyrirtækjakaupin nemur velta Refresco meira en einum milljarði evra.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group segir: ,,Þessi þróun sýnir skýrt hvernig FL Group og Refresco vinna saman að framgangi hugmynda sinna. Metnaðarfull markmið og skýr framtíðarsýn eru lykilhugtök í þessari vinnu fyrirtækjanna sem skilað hefur góðum árangri og mun gera það áfram í framtíðinni. Með kaupum á þremur fyrirtækjum á undangengnum vikum hefur Refresco stækkað eins og til var ætlast og náð að koma sér fyrir á nýjum mörkuðum. Það eru því spennandi tímar framundan í rekstri Refresco.?

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings veitti ráðgjöf í tengslum við kaupin og Kaupþing sér um lánsfjármögnun vegna kaupanna.


SBC er evrópskt drykkjarvörufyrirtæki sem á og rekur meðal annars:
Eaux Minérales de Saint-Alban-les-Eaux S.A. í Saint-Alban-les-Eaux, Frakklandi
Sunco N.V. í Ninove, Belgíu og Frisdranken Industrie Winters B.V. í Maarheeze, Hollandi
Velta samstæðunnar nam 235 milljónum evra á síðasta ári og starfa nærri 500 manns hjá SBC.
Meginframleiðsla SBC er gosdrykkir og gosvatn. Fyrirtækið framleiðir í nafni þekktra alþjóðlegra vörumerkja og sömuleiðis fyrir nokkrar kunnustu smásöluverslanir í Evrópu.