Greiðsluafkoma ríkissjóðs var jákvæð um 36,3 milljarða króna á síðasta ári en í fjárlögum var hins vegar gert ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 11,7 milljarða króna. Innheimtar tekjur ríkissjóðs voru 73 milljörðum krónum meira en búist hafði verið við. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga síðasta árs.

Ríkisendurskoðun segir að oft sé hægt að bregðast við óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum með því að hagræða í rekstri, en fjáraukalögum sé ætlað að mæta kostnaði sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum.

"Af þessu leiðir að sjaldan er hægt að færa réttmætar ástæður fyrir því að forstöðumenn stofni til útgjalda umfram fjárheimildir fjárlaga og fjáraukalaga. Slík umframgjöld ættu með réttu að leiða til viðurlaga gagnvart viðkomandi forstöðumönnum í samræmi við lög," segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Fyrri tilmæli ítrekuð

Ríkisendurskoðun beinir þremur ábendingum til ráðuneyta og fjárlaganefndar. Í fyrsta lagi eru þau tilmæli ítrekuð að ráðuneyti þurfi að bregðast við með fullnægjandi hætti þegar sýnt þykir að forstöðumenn stofnana nái ekki að halda rekstri innan fjárlaga. "Beita þarf viðurlögum láti forstöðumenn ekki segjast," segir í skýrslunni.

Í öðru lagi segir í skýrslunni að bæta þurfi áætlanagerð fjárlaga vegna ýmissa fjárlagaliða, m.a. liða með lög- eða samningsbundnum útgjöldum sem ekki verður breytt með skömmum fyrirvara. Í þriðja lagi eigi ekki að ganga út frá forsendum um samdrátt gjalda og hækkun á gjaldskrám nema raunverulega sé ætlunin að hrinda slíkum ráð- stöfunum í framkvæmd.