*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 13. nóvember 2019 13:11

Refsað hér þótt brotið sé erlendis

Sérfræðingur í þjóðarétti segir íslensk lög kveða skýrt á um refsingar fyrir mútur sem greiddar eru utan landsteinanna.

Ritstjórn
Bjarnir Már Magnússon er prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

„Lykilatriði hér er að það skiptir ekki máli að atvikin eigi sér stað í Namibíu. Það er kveðið skýrt á um það í almennum hegningarlögum að refsa skuli fyrir mútugreiðslur samkvæmt íslenskum hegningarlögum enda þótt brot sé framið utan íslenskrar lögsögu,“ segir Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samtali við Viðskiptablaðið. 

Bjarni segir tvær greinar íslenskra hegningarlaga fjalla beint um slík brot. Annars vegar 10. tölulið 6. grein almennra hegningarlaga og hins vegar 109. grein sömu laga.

6. greinin er svo hljóðandi: „Ennfremur skal refsað eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot, sem þannig er háttað, er hér á eftir segir, enda þótt það sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess, hver er að því valdur.“ 

10. töluliður 6. greinar hljóðar svo: „Fyrir háttsemi, sem greinir í samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum.“

Loks nefnir Bjarni 109. grein almennra hegningarlaga þar sem kveðið er á um að slík brot varði allt að fimm ára fangelsi. Greinin er svohljóðandi: Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] 1) gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum] eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.

[Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.]