Regína Bjarnadóttir þróunarhagfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þróunarmála hjá Aurora velgerðarsjóði.

Regína hefur gegnt starfi forstöðumanns greiningardeildar Arion banka frá því í nóvember 2013. Áður starfaði Regína sem hagfræðingur á hagfræðisviði Seðlabankans frá árinu 2007. Hún var verkefnastjóri hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í Guyana frá 2005 til 2007. Þá starfaði Regína við greiningar á hrávörumörkuðum og ráðgjöf hjá CRU Analysis og CRU Strategies í London frá 2001 til 2005.

Aurora velgerðarsjóður var stofnaður af hjónunum Ingibjörgu Kristjánsdóttur, landslagsarkitekt, og Ólafi Ólafssyni athafnamanni þann 23. janúar 2007. Sjóðurinn hefur stutt fjölbreytt verkefni á Íslandi og lagt mikla áherslu á Kraum tónlistarsjóð og Hönnunarsjóð Aurora sem báðir eru undirsjóðir Aurora.

Aurora hefur staðið fyrir byggingu 66 skóla í Sierra Leone í samstarfi við UNICEF, staðið fyrir þjálfun tæplega 300 kennara og stofnað mæðraklúbba, með yfir 3000 mæðrum, sem eru stuðningsaðilar við skólana. Eins hefur Aurora byggt sjúkrahúsálmu fyrir börn í Malaví ásamt fjölda annarra verkefna.

Regína mun hafa aðsetur á Íslandi og fylgja verkefnum eftir með því að heimsækja svæði þar sem sjóðurinn starfar í nánu samstarfi við heimafólk.

Regína er með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í þróunarhagfræði frá School of Oriental and African Studies, London.