Fasteignafélagið Reginn, dótturfélag Landsbankans, hefur falið fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé i félaginu Reginn A3 ehf en það á 7 fasteignir. Söluferlið er opið öllum fjárfestum, að því er segir í tilkynningu.

Fasteignir Regins A3 eru að meginhluta leigðar undir smásölurekstur á höfuðborgarsvæðinu.

Söluferlinu er skipt upp í fjögur skref og fá þeir aðilar sem uppfylla skilyrði aðgang að nauðsynlegum gögnum til að skila inn bindandi tilboði.

Fréttatilkynningin í heild:

„Reginn ehf. dótturfélag Landsbankans hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé í fasteignafélaginu Reginn A3 ehf. Félagið á 7 fasteignir sem eru að meginhluta leigðar undir smásölurekstur á höfuðborgarsvæðinu.

Tilgangur Regins A3 ehf. er kaup, sala og rekstur fasteigna. Félagið er með 24 leigusamninga við 19 leigutaka. Heildarfjöldi útleigðra fermetra er um 7.800. Starfsemi félagsins er í dag að fullu úthýst til Regins ehf.

Seljandi hlutafjárins er Reginn atvinnuhúsnæði ehf. sem er í eigu Regins ehf.

Söluferlið er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem standast hæfismat og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 350 milljónir króna. Aðilar þurfa jafnframt að gefa til kynna það verð sem þeir eru reiðubúnir að greiða fyrir hlutafé félagsins.

Frestur til að skila inn bindandi tilboði rennur út klukkan 16:00, mánudaginn 20. desember  2010.

Skilyrði fyrir þátttöku í söluferlinu er að fjárfestar fylli út upplýsingaeyðublað (fjárfestaform) og trúnaðaryfirlýsingu sem finna má á vef Landsbankans (www.landsbankinn.is).

Söluferlinu er skipt upp í 4 skref:

1.         Aðilar sem óska eftir að bjóða í hlutafé félagsins skulu skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu ásamt því að fylla út upplýsingaeyðublað er m.a. útlistar hæfni þeirra til þátttöku í söluferlinu. Þar skal einnig koma fram verðhugmynd.

2.         Þátttakendur sem uppfylla skilyrði til þátttöku í söluferlinu fá send frekari gögn um félagið ásamt aðgangi að rafrænu gagnaherbergi.

3.         Rafrænt gagnaherbergi verður opið fyrir þátttakendur frá 26. nóvember til 20. desember.

4.         Aðilar skila inn bindandi tilboði á þar til gerðu formi ásamt staðfestingu á handbæru fé eða útlistun á fjármögnun. Frestur til að skila inn tilboði rennur út kl. 16.00, mánudaginn 20. desember 2010.

Horft verður til eftirfarandi atriða við val á fjárfestum inn í ferlið:

·         Viðeigandi reynslu og þekkingu af sambærilegum fjárfestingum.

·         Fjárfestingargetu umfram 350 milljónir króna; með fjárfestingargetu er átt við handbært fé sem viðkomandi getur með trúverðugum hætti sýnt fram á að sé til reiðu til að greiða fyrir hið selda hlutafé.

·         Samkeppnisstöðu; viðkomandi fjárfestir þarf að tilgreina hver staða hans er á íslenskum fasteignamarkaði.

·         Mat fjárfesta á virði hlutafjár í félaginu; Stutt sölulýsing inniheldur fullnægjandi upplýsingar um félagið til að aðilar geti út frá sínum eigin arðsemiskröfum gefið seljanda til kynna óskuldbindandi verðhugmynd.

Gera þarf grein fyrir þessum fjórum atriðum á upplýsingaeyðublaði (fjárfestaform).

Frá og með 26. nóvember 2010 munu þeir aðilar sem sent hafa umbeðin skjöl og uppfylla fyrrgreind skilyrði að mati Regins ehf., fá aðgang að nauðsynlegum gögnum til að skila inn bindandi tilboði. Rétt er að ítreka að seljandi, Reginn Atvinnuhúsnæði ehf., áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum, breyta söluferlinu og/eða stöðva söluferlið eftir atvikum.

Markmið eiganda er að fá sem hagstæðast verð fyrir hlutaféð sem til sölu er og að salan sé endanleg og óafturkræf.

Allar frekari upplýsingar um söluferlið, félagið sem til sölu er og önnur nauðsynleg gögn, þar með talin trúnaðaryfirlýsing og upplýsingaeyðublað fyrir fjárfest eru aðgengileg á heimasíðu Landsbankans“

-----