*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 12. febrúar 2021 19:44

Reginn að kaupa hlut GAMMA í Smárabyggð

Reginn eignast hlut í stóru fasteignarþróunarverkefni sunnan Smáralindar, sem einnig er í eigu Regins. Byggja á um 675 íbúðir.

Ingvar Haraldsson
Útlit Smárabyggðarhverfisins þegar hverfið verður fullbúið.
Aðsend mynd

Fasteignafélagið Reginn er langt komið með kaup á ríflega fimmtungshlut í félaginu Smárabyggð ehf., af sjóðinum GAMMA:201 sem er í stýringu hjá GAMMA. Kauptilboð Regins í félagið CCI Fasteignir ehf. hefur verið samþykkt, en það á 20,6% í Smárabyggð, að því er fram kemur í uppgjöri Regins. Tilboðið er gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og því liggur endanlegt kaupverð ekki fyrir.

Smárabyggð ehf., vinnur að stóru fasteignarþróunarverkefni sem gengur undir nafninu 201 Smári. Þar er unnið að því að reisa um 675 íbúðir ásamt verslun og þjónustuhúsnæði sunnan Smáralindar, en Smáralind er í eigu Regins. Í ársreikningi CCI Fasteigna kemur fram að eignarhluturinn í Smárabyggð hafi verið metinn á 570 milljónir króna í árslok 2019. 

Eignir Smárabyggðar voru metnar á 8,1 milljarða króna í árslok 2019, eigið fé á 679 milljónir króna og skuldir 7,5 milljarðar króna. Þá var byggingu 133 íbúða lokið og 108 seldar, 164 íbúðir voru í byggingu og hönnun og undirbúningur stóð yfir á byggingu 350 íbúða.

Varða Capital og Klasi eiga hvort um sig tæplega 40% hlut í Smárabyggð. Varða Capital er í eigu Gríms Alfreðs Garðarssonar, Jónasar Hagan og Edward Mac Gillivray Schmidt. Klasi er að mestu í eigu Tómasar Kristjánssonar, Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar.

Reginn keypti einnig fasteignir hjúkrunarheimilisins Sóltúns í byrjun ársins á um 3,8 milljarða króna líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær.

Stikkorð: Reginn GAMMA Smárabyggð 201 Smári