Reginn hf. hefur skrifað undir samkomulag um einkaviðræður við fyrirtækið Austurhöfn um kaup Regins á öllu atvinnuhúsnæði á reit 5b á lóðinni Austurbakki 2 í miðborg Reykjavíkur. Um er að ræða 2.700 m2 verslunar- og veitingarými sem er staðsett á horni Geirsgötu og Austurhafnar. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar .

Byggingarnar sem munu hýsa áðurnefnd verslana- og veitingarými eru afmarkaðar af Gömlu höfninni, Marriott EDITION fimm stjörnu hóteli sem er nú í byggingu, fyrirhuguðum höfuðstöðvum Landsbankans og Hafnartorgi. Rýmið tengist bílakjallara sem nær frá Hörpu niður á Lækjartorg.  Verslunar- og veitingarými er að mestu leyti á jarðhæð. Í tilkynningunni segir að kaupin falla vel að fjárfestingarstefnu félagsins sem felur í sér að auka hlut félagsins í hágæða atvinnuhúsnæði á sterkum markaðssvæðum.

Miðað er við að rýmin verði afhent tilbúið til útleigu um mitt ár 2019. Samkomulagið er háð ýmsum fyrirvörum meðal annars um áreiðanleikakannanir og samþykki stjórnar Regins. Umfang viðskiptanna hvað varðar fjárhag og stærð er lítið í samanburði við eignasafn Regins og því munu kaupin hafa óveruleg áhrif á fjárhag afkomu Regins.

Styrkja viðskiptahugmyndir á svæðinu

„Tilgangur viðskiptanna ef af verður, er að styrkja viðskiptahugmyndir Regins á svæðinu enn frekar. Félagið hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að verslana- og þjónusturými á þessu einstaka svæði í miðbæ Reykjavíkur verði hugsuð, skipulögð og rekin sem ein heild. Með því næst betur að tryggja rétta samsetningu og gæði þeirra eininga sem saman mynda fyrirhugaðan verslana- og þjónustukjarna. En fyrir er Reginn kaupandi af öllu verslana og veitingarými á Hafnartorgi sem er staðsett á reitum 1 og 2 á lóðinni Austurbakka 2,“ segir í tilkynningunni.