Fasteignafélagið Reginn hefur tryggt endurfjármögnun á lánum Egilshallar í Grafarvogi upp á 5,5 milljarða króna. Fjármögnunin er verðtryggð til 10 ára og ber 3,85% fasta vexti. Lánveitandi er REG 1 fagfjárfestasjóður í rekstri Stefnis hf, dótturfélags Arion banka. Áætlaður ávinningur félagsins vegna lægri vaxtakjara er um 60 milljónir króna á ársgrundvelli. Fram kemur í tilkynningu frá Reginn, að með endurfjármögnuninni sé lokið fyrsta áfanga  í endurfjármögnun félagsins.

Í Egilshöll eru kvikmyndahús, keiluhöll með veitingastöðum, knattspyrnuvöllur innanhúss, skautasvell, heilsurækt og skotæfingasalur. Fyrir utan húsið eru svo gervigrasvellir.

Fasteignafélagið var skráð á hlutabréfamarkað í sumar. Eignarhaldsfélag Landsbankans á 25% hlut í því.